17:22

{mosimage}

Ólafur Rafnsson og Ívar Ásgrímsson leikmenn Hauka eiga hér í baráttu við Axel Nikulásson leikmann Keflavíkur

 

Ólafur Rafnsson lét af formennsku KKÍ fyrir að verða ári síðan. Karfan.is hafði samband við hann til að athuga hvernig lífið væri eftir 15 ár í stjórn KKÍ, þ.a. 10 sem formaður.

Nú er ár liðið síðan þú hættir sem formaður KKÍ, eftir mörg ár í stjórn sambandsins og þar áður leikmaður og þjálfari. Hvernig er að vera kominn aðeins frá körfunni? Jú það hefur vissulega orðið breyting á högum eftir að hafa verið í nær daglegu sambandi við skrifstofu KKÍ í sextán ár.  Hinn nýi vettvangur er hinsvegar í íþróttamiðstöðinni þar sem ég hitti reglulega starfsmenn og forystumenn KKÍ, og er auk þess í prýðilegu sambandi við þá bæði í embættiserindum og eins sem “fyrrverandi formaður”. Ég held ég sé raunar ekki kominn svo langt frá körfunni þrátt fyrir breytt hlutverk.  Ég fylgist afar vel með því sem þar er að gerast, en munurinn er e.t.v. helst sá að nú fylgist ég afar vel með mun fleiri íþróttagreinum en áður. Þegar manni finnst maður eiga svo mikið í fyrirbæri á borð við KKÍ þá er manni hreint ekki sama hvernig á málum er haldið.  Það er því einstaklega gott að vita til þess að þar er vel haldið utan um stjórnvölinn, bæði stjórn og starfsmenn.  Ég held nefnilega að margir hafi vanmetið Hannes S. Jónsson, en hann hefur sýnt að hann hefur það sem til þarf og er hörkuduglegur.  Friðrik Ingi hefur svo komið inn með nýjar víddir, og lofar góðu enda hugsjónamaður í körfunni.  Oddur virðist líka duglegur, og stjórnin almennt mjög virk. 

Ertu kannski á kafi í þessu enn? Tja, kannski ekki á kafi, en ég spila vissulega hádegiskörfu einu sinni í viku – með hópi sem er búinn að vera saman í 20 ár.  Kjarninn eru skólafélagar úr lagadeildinni, en síðan hafa bæst við gamlir góðir félagar m.a. úr Haukum.  Ekki skemmir fyrir að við spilum í gamla góða Haukahúsinu sem við eigum svo góðar minningar úr, en er nú reyndar nefnt íþróttahús Bjarkanna. 

Eru börnin kannski í körfu? Já, tvö af börnunum mínum hafa verið í körfu.  Elsta dóttirin varð nýlega tvöfaldur bikarmeistari með yngri flokkum Hauka, og ég er að upplifa allt aðra hlið á starfinu nú sem foreldri.  Börnin hafa reyndar verið í fleiri íþróttagreinum – ég vil að þau fái að prófa sem flesta valkosti og fylgja félagsskap vina og skólafélaga – svo framarlega sem þau hafa vilja til að iðka íþróttir yfirleitt er ég ánægður.  Ef körfubolti verður ofan á þá leiðist mér það ekki, en ætla mér ekki að lifa mína brostnu drauma í kringum þeirra íþróttaferil 

Þú ert í stjórn FIBAEurope, hvernig samrýmist það starfi forseta ÍSÍ? Trúnaðarstörf fyrir körfuknattleikinn í Evrópu og fyrir alþjóðasambandið hafa raunar verið að vinda nokkuð upp á sig og tekið aukinn tíma, en ég hef ekki orðið var við neina hagsmunaárekstra.  Ef slíkt kæmi upp þá er alveg ljóst hvernig forgangsröðunin yrði – ég er fyrst og fremst forseti Íþrótta- og Ólympíusambandsins.  Ég hef hinsvegar frekar orðið var við það á vettvangi alþjóðasamstarfs á vegum ÍSÍ að þetta er fremur talið til tekna.

 

Hefur þú mætt á leiki í Iceland Express deildinni í vetur? Það er reyndar það sem ég sakna hvað mest er tímaskortur til að mæta á völlinn.  Ég hef vissulega skellt mér á leiki í vetur, en engan veginn í sama umfangi og áður.  Embættisstörf forseta ÍSÍ fara einkum fram á kvöldin og um helgar, og því minna um frístundir á þeim tíma en áður.  Ég fylgist hinsvegar vel með úrslitum og umfjöllun, bæði í fjölmiðlum og á netinu. 

Nú féll þitt félag úr efstu deild eftir rúm 20 ár þar, hvernig er að sjá félagið sem þú tókst þátt í að koma í efstu deild og gera að Íslandsmeisturum fara niður? Æ þurftirðu endilega að salta í þetta sár…manni finnst svo stutt síðan við unnum okkur upp í úrvalsdeildina fyrir 23-24 árum síðan, og urðum Íslandsmeistarar 1988.  Hluti félaganna heldur saman í gegnum Golfhópinn Bollann, þar sem við spilum saman golf vikulega á sumrin.  Samskipti hópsins á e-mail undanfarið hafa markast af harmi vegna fallsins.  Ég vona bara að þetta verði til þess að styrkja strákana þegar þeir koma aftur upp í deild þeirra bestu.  Þar á mitt gamla félag auðvitað heima. 

Nú er úrslitakeppnin hafin, hvernig lýst þér á?  Deildin hefur verið einkar spennandi og jöfn í vetur.  Við erum að sjá breytingar í formi fleiri sterkra liða.  Keflavík er þegar fallið úr keppni, sem er nýlunda fyrir þá, en að sama skapi koma Vesturlandsliðin sterk inn.  Gömlu stórveldin ÍR og KR halda prýðilega uppi merkjum Höfuðborgarsvæðisins, en enginn skyldi afskrifa Suðurnesin þar sem bæði Njarðvík og Grindavík eru ennþá með (a.m.k. þegar þetta viðtal fór fram).  Hér er auðvitað vísað til úrslitakeppni karla, en kvennadeildin virðist vera fyrirsjáanlegri, og þar kannski sárabót fyrir okkur Haukamenn.

 

runar@karfan.is

 

Mynd: Einar Falur Ingólfsson