23:46 

{mosimage}

 

 

Valur Ingimundarson þjálfari Skallagríms reiknar ekki með að þjálfa lið Skallagríms á næsta keppnistímabili í Iceland Express deildinni. Valur var súr í bragði í samtali við Arnar Björnsson á Sýn eftir tap hans manna fyrir Grindavík í kvöld og sagði dómara hafa leikið lið sitt illa. Frá þessu er greint á www.visir.is í kvöld.

"Ég er ekki alsvekktur með spilamennsku okkar í kvöld. Við byrjuðum illa en náðum að komast inn í leikinn aftur en mér fannst við ekki vera að fá sömu hlutina og Grindvíkingarnir undir körfunni. Flake var hvað eftir annað barinn í spað í teignum, en svo var flautað á allt á hinum enda vallarins.

Ég ætla ekki að vera að væla út í dómarana en mér fannst það ljóst bæði í fyrsta leiknum, í kvöld og í bikarkeppninni að við ættum ekki að fara langt í vetur," sagði Valur og vildi ekki fara nánar út í kenningar sínar.

"Þessi bransi snýst auðvitað um það að komast langt í úrslitakeppninni en ég er stoltur af þessu liði og þetta er búinn að vera frábær vetur. Það er leiðinlegt fólksins vegna að fara ekki lengra í keppninni. Það er það sama með öll landsbyggðarliðin – það hallar á okkur," sagði Valur. Hann sagði alls ekki víst að hann verði með lið Skallagríms næsta vetur – hann sé búinn að fá nóg í bili.

"Það er enn ekkert ákveðið með næsta tímabil, ég er orðinn hundþreyttur á þessu í bili og ég er ekkert viss um að ég komi aftur. Það verður bara að ráðast," sagði Valur.

 

www.visir.is