13:56 

{mosimage}

 

(Valur í þá gömlu góðu með Njarðvík) 

 

Valur Ingimundarson var rétt í þessu í símaviðtali hjá Valtý Birni í íþróttaþættinum ,,Mín skoðun” á X-inu 97,7 og þar kom fram að Valur veltir því vel fyrir sér þessa dagana hvort hann eigi að taka sér smá frí frá körfuknattleiksþjálfun. Valur hefur nú þjálfað körfuknattleik í 21 ár og hefur skilað af sér glæsilegu starfi í Borgarnesi en um leið og liðið komst upp úr 1. deild undir stjórn Vals hefur það verið á meðal sterkustu liða landsins.

 

,,Þetta er einn skemmtilegasti veturinn minn hjá Skallagrím en maður vill prófa að taka sér smá frí frá boltanum því það er öllum nauðsynlegt að taka sér smá frí,” sagði Valur í samtali við Valtý Björn. ,,Ég er ekki að gera þetta af óánægju og er búinn að vera ánægður hér í starfi en vissulega ekki sáttur við það að detta út úr úrslitakeppninni. Grindvíkingar komu mér bara á óvart hvað þeir voru góðir,” sagði Valur.

 

Valtýr Björn mátti vart heyra á þetta minnst ógrátandi og vildi endilega að Valur héldi áfram störfum sínum í körfuboltanum en upp úr krafsinu kom að erlendu leikmennirnir þrír, Jovan, Dimitar og Flake eru allir með samning hjá Skallagrím út næstu leiktíð. Valtýr innti Val ennfremur eftir því hvort hann hefði endanlega ákveðið það að taka sér frí og svaraði Valur þessu:

,,Nei nei, þetta er samt stór möguleiki hjá mér, ég hleyp samt ekki í burtu ef það finnst ekki annar þjálfari en ég hef áhuga á því að hvíla mig. Þegar þú ert búinn að vera að þjálfa í 21 ár viltu fá að hvíla þig smávegis,” sagði Valur sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Skallagrím.

 

Valtýr fékk Val til að rýna í undanúrslitin og sagði Valur að Njarðvík ætti að hafa yfirhöndina gegn Grindavík en að Grindvíkingar héldu áfram á sömu braut væri aldrei að vita hvað gæti gerst. Hvað rimmu Snæfells og KR varðar sagði Valur að hann hefði tilfinningu fyrir því að Snæfell færi áfram en bætti því að KR-ingar væru vissulega mjög góðir líka.

 

Unnið upp úr útvarpsviðtali Valtýs við Val Ingimundarson af útvarpsstöðinni X-ið 97,7