13:45 

{mosimage}

 

 

Í kvöld hefst úrslitakeppnin í Iceland Express deild karla og nú rennur sá tími í garð sem körfuknattleiksunnendum ætti að finnast hvað skemmtilegastur. Keppnin hefst með tveimur leikjum í kvöld þegar KR tekur á móti ÍR og Snæfell tekur á móti Keflavík. Á morgun mætast svo Njarðvík og Hamar/Selfoss í Ljónagryfjunni og Skallagrímur tekur á móti Grindavík.

 

Leikur Snæfells og Keflavíkur hefst kl. 19:15 í Stykkishólmi en Snæfell lauk keppni í deildarkeppninni 3. sæti en Keflavík í 6. sæti og því hafa Snæfellingar heimavallarréttinn í rimmunni. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í undanúrslitin en Snæfell vann báðar deildarrimmur liðanna í vetur.

 

Í DHL-Höllinni mætast KR og Bikarmeistarar ÍR kl. 20:00 og verður leikurinn í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni SÝN. KR vann báðar rimmur liðanna í deildinni í vetur og lauk keppni í 2. sæti deildarinnar en ÍR í því sjöunda og því hefur KR heimaleikjaréttinn. Þetta er í fyrsta sinn sem KR og ÍR mætast í úrslitakeppninni samkvæmt Fréttablaðinu í dag.