9:00

{mosimage}

Marel í baráttu við sitt gamla félag, Grindavík

Mikill keppnismaður með rólegt yfirbragð er samdóma álit þeirra sem karfan.is fékk til að lýsa Marel Guðlaugssyni sem verður leikjahæsti leikmaður Úrvalsdeildar frá upphafi á morgun þegar lið hans Haukar taka á móti ÍR.

Marel Örn Guðlaugsson leikmaður Hauka leikur sinn 410. leik í Úrvalsdeild föstudaginn 2. mars þegar Haukar taka á móti ÍR. Þar með er Marel orðinn sá leikmaður sem leikið hefur flesta leiki í Úrvalsdeild frá upphafi og er hér einungis átt við deildarleiki, ekki úrslitakeppni. 

Það var þann 18. mars 1988 sem Marel lék sinn fyrsta leik í Úrvalsdeild, leikurinn var leikur Njarðvíkur og Grindavíkur og sigruðu heimamenn í Njarðvík 101-64 og skoraði Marel 2 stig, þá nýorðinn 16 ára. Þjálfari nýliða Grindavíkur þennan vetur og sá sem gaf Marel “sénsinn” var Brad Casey. Marel lék í 9 tímabil með Grindavík og alls urðu deildarleikirnir 210 hjá honum og með þeim varð hann Íslandsmeistari 1996 og hlaut silfur 1994, 95 og 1997.

{mosimage}  

Marel að fara upp í skot rétt innan við miðju í lok leiks gegn ÍR

Sumarið 1997 söðlaði Marel um og gekk til liðs við KR þar sem hann lék 2 tímabil, alls 44 leiki og fyrra árið töpuðu þeir úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitil svo Marel fékk sitt 4. silfur á 5 árum. 

Eftir 2 ár í KR skipti Marel í Hauka þar sem hann hefur leiki síðan og er leikurinn á föstudag gegn ÍR hans 156. deildarleikur með Haukum. 

Marel er nú að leika sitt 19. tímabil í Úrvalsdeild og á þeim tíma hefur hann haft 16 þjálfara. 

Tölfræði:

409 leikir í Úrvalsdeild

3293 stig í Úrvalsdeild

1 Íslandsmeistaratitill

1 Bikarmeistaratitill

38 A landsleikir

5 U20 landsleikir

18 Unglinga- og drengjalandsleikir

 

 

{mosimage}  

Í baráttunni

Karfan.is hafði samband við tvo fyrrverandi þjálfara Marels og einn fyrrverandi samherja og fékk þá til að segja aðeins frá honum. 

Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfaði Marel í Grindavík þrjá vetur og var m.a. þjálfari liðsins þegar það varð Íslandsmeistari. Hvernig leikmaður er Marel?

Marel var stórskemmtilegur leikmaður, hann leyndi vel á sér. Hann hafði þetta rólega yfirbragð en undir niðri var mikill keppnismaður og hann þoldi ekki að tapa. Marel lét finna fyrir sér þó það sæist ekki langar leiðir.

 

Hann var mjög góður skotmaður og gat dottið í mikið stuð, hann nýttist líka vel á móti minni bakvörðum því hann gat farið með þá á blokkina og nýtti sér hæðarmun. Marel var ekki með bestu boltatæknina en hann bætti það upp á öðrum stöðum.

 Hvernig var að hafa hann í sínu liði?

Mér fannst mjög gaman að þjálfa Marel og fannst hann alltaf traustur. Hann hafði góð áhrif á liðsfélagana, samherjar hans virtu Marel fyrir margt og ekki síst fyrir að telja alltaf á æfingum. Stundum er sagt að þú deilir ekki við dómarann en á æfingum deildi enginn við Marel. Hann var með rétta stöðu öllum stundum.

 

Ég vil bara að lokum nota tækifærið til að óska góðum félaga mínum Marel til hamingju með þennan áfanga.

 

{mosimage}

 

Íslandsmeistarar Grindavíkur 1996

Fyrstu tvö ár Marels í Haukum þjálfaði Ívar Ásgrímsson hann, Ívar hafði þetta að segja um Marel. 

Marel er ein besta 3ja stiga skytta sem spilað hefur hér á landi.  Gullaldartími hans var með Grindavík og þar átti hann sinn besta tíma og átti hann það til að klára leiki einsamall þar sem hann þurfti kannski ekki að koma mjög langt fram í sóknina, þ.e. hann tók 2 til 3 skref inn fyrir miðju og lét vaða.  Ég man að ég átti það til að bölva honum mikið er ég spilaði á móti honum og aldrei lærði maður að byrja að dekka hann fyrr en það var orðið of seint.

 

Þar sem Marel giftist rétt, þ.e. Hafnfirðingi og það Haukakonu þá fluttist hann í menninguna og skipti auðvitað yfir í Hauka og var ég þar þjálfari og fékk þá tvo góða sveitamenn, Marel og Gumma Braga.  Marel kom mér þá á óvart með því að hann gat spilað ágætis vörn, en hann var kannski bara þekktur fyrir það að vera sóknarmaður.  Marel á það til að ganga eins langt og dómarar leyfa og því var oft gott að hafa hann til taks þar sem Haukamenn eru prúðmenni upp til hópa og kunna oft ekki þessi lúmsku brögð sem kennd eru í rokinu á Suðurnesjum.

 

Marel er mikið ljúfmenni og einstaklega viðkunnalegur drengur, en nú er mér farið að líða eins og ég sé farinn að skrifa minningargrein um mann sem enn er að spila og því er gott að ljúka þessu á því að hann hlýtur að halda áfram á næsta ári, þar sem hraðinn í fyrstu deild er mun minni en í Úrvalsdeildinni.

 

Til hamingju með þennan merka áfanga og gaman að ég eigi einhvern þátt í þessu, þar sem Marel gafst ekki upp á mér á þessum tveim árum sem ég þjálfaði hann og lagði skóna á hilluna.

Pétur Rúðrik Guðmundsson lék með Marel í 5 tímabil í Grindavík auk þess sem eiginkona hans, Sandra Guðlaugsdóttir, er systir Marels. Helstu kostir Marels?

Góður skotmaður og fínn að rekja knöttinn til hægri J,  góður varnarmaður.

Hefur gríðalegt keppnisskap, það sást ekki á svipbrigðum á honum en það sauð undir niðri þegar hann tapaði. Einnig er hann áræðin og góður liðsfélagi – þú vissir alltaf hvar þú varst með hann. Það var alltaf hægt að stóla á að hann gerði sitt fyrir liðið.

 Helstu ókostir?

Hérna er eitthvað sem er erfitt að kommenta á, það gæti eyðilagt fjölskylduboðin, en þetta verður að fá að fljóta.

Það er ekki nokkur leið að fá hann til að rekja knöttinn til vinstri. J Ef að hann á að vera inná, þá þurfa kerfin að byggjast upp á því að hann fái boltann á réttum kanti.

 

Marel var alltaf mjög samviskusamur leikmaður, hann hafði góð áhrif á liðsfélaga sína og er leikmaður sem ég mundi vilja hafa í mínu liði hvenær sem er.

 

 

{mosimage}

Marel og Jeb Ivey leikmaður Njarðvíkur eigast við

 

 

{mosimage}

Snemma beygist krókurinn, hér er Magni sonur Marels í leik með byrjendaflokk Hauka gegn Grindavík

 

runar@karfan.is

 

Myndir: Gunnar Freyr Steinsson nema mynd af Grindavík, hana tók Þorkell Þorkelsson