23:54

{mosimage}

Í kvöld mættust á Króknum Tindastóll og KR í næst síðustu umferð Iceland Express deildarinnar. Nokkuð var í húfi í leiknum, Stólarnir þurftu sigur til að eiga einhverja möguleika á sæti í úrslitakeppninni og KR er í baráttu um 2. sætið í deildinni. Byrjunarlið heimamanna var hefðbundið; Lamar, Svavar, Vladimir, Ísak og Zekovic. KR megin byrjuðu Brynjar, Fannar, Edmund, Sola og Tyson Patterson.

Leikurinn fór fjörlega af stað og Stólarnir komust í 9-5 eftir þriggja stiga körfu frá Zeko. Þá tóku KR-ingar sprett og breyttu stöðunni í 9-14 og Kristinn þjálfari Tindastóls sá þann kost vænstan að taka leikhlé. Það hafði til ætluð áhrif og Stólarnir jöfnuðu strax leikinn 14-14. Eftir það var munurinn lítill, en þó var KR alltaf á undan. Staðan að loknum 1. leikhluta 31-33.

Annar fjórðungur hélst áfram jafn allt til hálfleiks, en KR leiddi þó með þremur stigum 50-53 þegar að honum kom. Þeir skoruðu 7-3 á Stólana á síðustu tveimur mínútum leikhlutans og nægði það til að halda forskotinu frá fyrsta leikhluta. Vladimir var öflugur fyrir Stólana í fyrri hálfleik, skoraði 14 stig og tróð einu sinni með tilþrifum. Zeko var með 10 stig og var nokkuð sprækur. Hjá KR var Fannar kominn með 13 stig í hálfleik og fór fyrir sínum mönnum. Fyrri hálfleikur var nokkuð hraður og sóknarleikurinn að mestu í fyrirrúmi eins og sést á skorinu.

Síðari hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri endaði og var jafn framan af. Í stöðunni 58-59 skoraði KR 8 stig í röð og Kiddi tók leikhlé til að þétta í sprungurnar í vörninni. Það tókst því undir lok 3. fjórðungs var staðan orðin 67-68. Tyson skoraði svo síðustu körfu leikhlutans og KR hélt sínu þriggja stiga forskoti frá því í hálfleik.

Allt var í járnum í 4. leikhluta fyrstu mínúturnar. Eftir rúmlega 4. mínútna leik var staðan 75-80, en þá hrökk allt í baklás hjá heimamönnum og KR náði 10 stiga forskoti á innan við mínútu og staðan 75-85. Kiddi tók enn leikhlé, en nú brást það og leikur heimamanna batnaði ekki að ráði og KR-ingar sölluðu niður bónusvítum á meðan eina karfa heimamanna var 3. stiga karfa frá Zeko. Þegar tvær mínútur voru til leiksloka og staðan 78-93, játaði Kiddi sig sigraðan og skipti inn peyjunum og hið sama gerði Benni KR þjálfari. Munurinn jókst aðeins í lokin og endaði í 18 stigum, 81-99 fyrir KR. Nokkur hiti var í leiknum á köflum, Gulla og Skarphéðni lenti aðeins saman, en það leystist nokkuð friðsamlega úr því. Heimamenn voru ekki allskostar sáttir með dómgæsluna og Gulli missti sig aðeins eftir leikinn og fékk dæmda á sig brottrekstrarvillu.

Bestir heimamanna voru þeir "austantjaldsbræður" Vujcic og Zekovic. Vujcic með 19 stig og Zeko með 17 stig og 12 fráköst. Lamar var með 17 stig, en náði sér ekki alveg á strik í kvöld. Hjá KR var Sola stigahæstur með 22 stig, en næstir komu Fannar og Patterson með 21 stig hvor. Fannar var einnig sterkur í teignum og tók niður 11 fráköst.

Nokkrar tölur úr leiknum: 9-4, 18-16, 22-26, 31-33, 38-37, 41-44, 50-53, 56-59, 60-67, 67-70, 72-74, 75-86, 78-93, 81-99.

Eftir þessi úrslit er ljóst að 9. sætið er Tindastóls í vetur, en KR er í góðum málum fyrir síðustu umferðina í öðru sæti deildarinnar.

 

www.skagafjordur.net/karfan

 

Mynd: www.skagafjordur.net/karfan