12:56 

{mosimage}

(Brynjar Björnsson í baráttunni gegn ÍR í gær) 

KR sigraði ÍR 91-78 og tryggði sér þáttöku í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar þar sem mótherjarnir verða Snæfell. Staðan í hálfleik var 39-43. Stigahæstur var fyrirliðinn Fannar Ólafsson með 22, J.J. Sola skoraði 20 stig.  

Stemmningin var góð hjá þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína í DHL-höllina í gær eða um 800 manns. KR-ingar náðu naumu forskoti á upphafsmínútunum (12-7) en þá kom góður kafli gestanna þar sem hittni þeirra var lyginni líkust. Eiríkur Önundarson átti góðan sprett, sem og Steinar Arason. Sóknarleikur KR-inga virkaði ryðgaður en þetta var rétt að byrja. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 18-29.

Brynjar og Darri komu sterkir inn í annan leikhluta með baráttu og kraft. Darri setti þrist sem minnkaði muninn í 21-29 og í kjölfarið skoruðu KR-ingar önnur 15 stig gegn tveimur stigum ÍR-inga. KR-ingar komnir í 35-31. Gestirnir réttu úr kútnum og þegar mínúta var eftir af hálfleiknum var staðan jöfn 39-39. Á lokamínútunni stal Keith boltanum í tvígang sem leiddi til hraðupphlaupskarfa fyrir gestina og þeir með fjögurra stiga forskot í hálfleik 39-43.  Þriðji leikhluti var líklega einn sá besti KR hefur spilað í vetur. Það er skemmst frá því að segja að KR yfirspillaði gestina frá A til Ö. Eins og oft áður byrjar þetta í vörninni. Liðið spilaði í leikhlutanum frábæra liðsvörn þar sem menn hjálpuðu hvorir öðrum og gestirnir komust hvorki lönd né leið og töpuðu boltanum eða skot þeirra voru varin. Þetta skilaði sér í hraðupphlaupum trekk í trekk. KR-ingar skoruðu 25 stig gegn 5 stigum ÍR-inga í leikhlutanum og staðan 64-48.  Mestur varð munurinn í fjórða leikhluta 76-56, 20 stig. ÍR-ingar klóruðu þó í bakkann og minnkuðu muninn niður í 10 stig, 81-71 þegar þrjár mínútur voru eftir. Nær komust þeir ekki og KR-ingar voru rólegir með sigurinn í höndunum síðustu tvær mínúturnar.  

Fannar Ólafsson átti flottan leik. Hann lenti í smá basli um tíma þar sem skotin rötuðu ekki rétta leið og síðan meiddist hann í fjórða leikhluta. J.J. Sola byrjaði rólega en kom síðan sterkur inn í annan leikhluta og út leikinn. Tyson skilaði þrefaldri tvennu 17 stigum, 14 fráköstum og 10 stoðsendingum.

 

Tölfræði leiksins

 

www.kr.is/karfa – Meðfylgjandi mynd tók Stefán Helgi Valsson fyrir vefsíðu KR