22:12

{mosimage}

Sigur Keflavíkur var ekki í hættu í kvöld eftir frábæra rispu gestanna í 2. leikhluta er þær breyttu stöðunni úr 23-27 í 23-38. Eftir það leiddu Keflavík allan leikinn og innbyrtu öruggan 76-91 sigur í Röstinni í Grindavík. Keflavík leikur því til úrslita gegn Haukum eða ÍS en liðin leika oddaleik sinn á morgun kl. 16 að Ásvöllum. María Ben Erlingsdóttir gerði 22 stig og tók 8 fráköst fyrir Keflavík í kvöld en Grindvíkingar telfdu fram Monicu Diamond sem gerði 17 stig í leiknum. Diamond kom í stað Tamöru Bowie sem hélt til Bandaríkjanna í gær sökum veikinda ættingja og því var Diamond fengin til Grindavíkur. Hún fékk aðeins sólarhring til þess að slípa sig inn í Grindavíkurliðið sem reyndist of naumur tími.

 

Diamond hóf leikinn vel fyrir Grindavík og kom heimakonum yfir 8-7 með þriggja stiga körfu. Keflvíkingar pressuðu á Grindavík allt frá fyrstu mínútu leiksins og uppskáru vel í kjölfarið og náðu að byggja upp 10 stiga forystu þegar 1. leikhluta lauk, 17-27.

 

Í öðrum leikhluta fór Grindavík í svæðisvörn og skömmu síðar voru Keflvíkingar líka komnir í svæðisvörn en þessar varnir liðanna voru við lýði það sem eftir lifði leiks. Í stöðunni 23-27 eftir þrist frá Jovönu í Grindavík tók Keflavík á rás. Keflvíkingar gerðu þá 11 stig í röð án þess að Grindavík næði að svara og liðin gengu svo til leikhlés í stöðunni 34-48 Keflavík í vil.

 

Grindavík hóf annan leikhlutann án Monicu Diamond og léku þær prýðisvel án hennar. Þó skuldinni verði ekki skellt á Diamond þá hrundi leikur Grindavíkur um leið og hún kom inn á leikvöllinn í 2. leikhluta og Keflavík byggði upp trausta forystu.

{mosimage}

 

Bryndís Guðmundsdóttir og Svava Stefánsdóttir fengu báðar sínar fjórðu villu snemma í fjórða leikhluta en það fékk ekki á Keflavíkurliðið sem leiddi þriðja leikhlutann. Heimamenn náðu þó að minnka muninn í 8 stig fyrir síðasta leikhlutann þar sem Jovana Lilja Stefánsdóttir gerði flautukörfu úr sniðskoti.

 

Flóðgáttir Grindavíkur brustu í fjórða leikhluta og Keflavík bætti enn við forskot sitt. Svæðisvörn Keflavíkur sem og pressan reyndist Grindavík þungbær og oft og tíðum voru heimamenn með galopin skot við þriggja stiga línuna sem vildu einfaldlega ekki í netið. Grindavík tók 39 þriggja stiga skot í leiknum og hittu úr 11 og Ingibjörg Jakobsdóttir setti aðeins niður eina þriggja stiga körfu í níu tilraunum en nýting hennar hefur verið mun betri í síðustu leikjum.

 

Keflavíkurliðið kláraði leikinn síðan rétt eins og þær hófu hann, sem ein liðsheild og úr var öruggur sigur, 76-91. Stöllurnar María Ben Erlingsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir voru samtals með 40 stig í kvöld. María með 22 en Bryndís 18. Hjá Grindavík gerði Hildur Sigurðardóttir 22 stig og tók 11 fráköst.

 

Þetta er því annað árið í röð sem Grindavík má sætta sig við sumarleyfi afgreitt úr höndum Keflavíkurkvenna en rimma þessara liða í undanúrslitunum var frábær skemmtun og leikirnir með því besta sem sést hefur í kvennakörfunni í vetur. Það reyndist Grindvíkingum þungbært að fá inn leikmann með svo skömmum tíma til að fylla skarð Tamöru Bowie en þær gulu stóðu sig engu að síður vel í keppninni og verða vafalaust með eitt sterkasta lið landsins á næstu leiktíð.

 

Tölfræði leiksins

 

www.vf.is

{mosimage}