21:50

{mosimage}

 

 

Ummæli þjálfara Keflavíkurkvenna hafa líkast til verið Haukakonum ofarlega í huga í dag er Íslandsmeistararnir keyrðu Stúdínur í parketið af alefli og rótburstuðu oddaleik liðanna 81-59 að Ásvöllum. Jón Halldór Eðvaldsson sagði á föstudag að Keflavík myndi mæta ÍS í úrslitum Iceland Express deildar kvenna en Haukar sáu til þess að svo yrði ekki. Í síðari hálfleik hnykkluðu Haukar vöðvana og hræddu líftóruna úr ÍS sem gerðu aðeins 9 stig í leikhlutanum gegn 21 stigi Hauka. Það verða því aftur Keflavík og Haukar sem mætast í úrslitum en liðin léku til úrslita í fyrra þar sem Haukar kafsigldu Keflavík 3-0.

 

Leikurinn í dag fór rólega af stað að Ásvöllum og ekki var laust við að liðin væru nokkuð mistæk í upphafi. Jafnt var þó með liðunum í upphafi og Signý að leika vel fyrir Stúdínur. Í stöðunni 8-9 ÍS í vil tóku Haukar á rás og breyttu stöðunni í 18-11 og leikhlutanum lauk svo í stöðunni 21-13 Haukum í vil.

 

Óhætt er að segja að nokkuð hafi hallað á ÍS í dómgæslunni framan af leik þar sem Stúdínur fengu dæmda á sig hverja villuna á fætur annarri. Margar hverjar voru mjög svo strangar og lentu lykilmenn í villuvandræðum hjá Stúdínum. Yfirburðir Hauka voru engu að síður það miklir að skuldinni verður langt í frá skellt á dómgæsluna. Helena Sverrisdóttir setti niður tvö skot af línunni og staðan orðin 35-20 Haukum í vil og um 3 mínútur til hálfleiks.

 

{mosimage}

 

Haukar leiddu í hálfleik 45-29 og léku stífa og góða pressuvörn í fyrri hálfleik sem skilaði þeim oft auðveldum körfum.

 

Þegar í síðari hálfleik var komið gáfu Haukar tóninn strax frá fyrstu mínútu. Stúdínur gerðu aðeins 9 stig í þriðja leikhluta og þá var Casey Rost víðsfjarri sínu besta í leiknum þar sem Haukar léku frábæra vörn á hana.

 

Lokatölur leiksins voru eins og áður greinir 81-59 og skrifast þessi stórsigur alfarið á þétta Haukavörnina sem oft og tíðum hélt ÍS alfarið frá teignum og því urðu gestirnir oft að sætta sig við langskot sem ekki voru að detta hjá þeim í dag. ÍS hitti aðeins úr 3 af 17 þriggja stiga tilraunum sínum í dag og töpuðu 26 boltum upp í hendurnar á Haukum.

 

Stigahæst í liði Hauka í dag var Ifeoma Okonkwo með 30 stig og 9 fráköst en Signý Hermannsdóttir gerði 16 stig og tók 13 fráköst fyrir ÍS.

 

{mosimage}

 

Ljóst er að Íslandsmeistararnir eru í hörkuformi um þessar mundir og bíða þess sennilega í ofvæni að fá að visa ummælum Jóns Halldórs aftur til föðurhúsanna en líklegt er að yfirlýsingar hans um að ÍS kæmist áfram hafi kveikt rækilega í Haukum í dag.

 

Í aðsigi er svakaleg úrslitarimma millum Keflavíkur og Hauka og er skemmst að minnast bikarleiks liðanna fyrr á þessari leiktíð sem er einn allra besti kvennakörfuboltaleikur sem sést hefur í langan tíma. Vonandi verða þeir fleirri millum þessara risavelda í kvennakörfunni.

 

Tölfræði leiksins

 

Texti: nonni@karfan.is

Myndir: nonni@karfan.is og stebbi@karfan.is

 

{mosimage}

 

{mosimage}