10:11 

{mosimage}

Njarðvík sigraði Þór í Þorlákshöfn í gærkvöld 86-91 í hörkuleik. Heimamenn leiddu 48-46 í hálfleik. Stigahæstur í liði UMFN var Friðrik Stefánsson með 25 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar. Damon Bailey gerði 31 stig og tók 9 fráköst í liði Þórs.  

Það gekk erfiðlega hjá Njarðvíkingum að skila sér í hús fyrir leik í gær. Mikil hálka var á leiðinni og tafðist ferðin töluvert og Njarðvíkingar voru mættir í hús tæpum hálftíma fyrir leik. Þeir byrjuðu leikinn þó ágætlega og leiddu 19-24 eftir fyrsta leikhluta.

 

Ekki var það sóknin sem var að stríða Njarðvíkingum að þessu sinni, heldur vantaði upp á kraftinn í vörninni og það var eins og menn væru að gleyma að Þórsarar voru að berjast fyrir lífi sínu. Forysta heimamanna var 2 stig í hálfleik og þeir náðu að bæta í forystuna í síðari hálfleik. Stóra mómentið í leiknum var í lok þriðja og upphafi fjórða leikhluta. Þórsarar höfðu sjö stiga forskot en á skömmum tíma voru Njarðvíkingar komnir með 6 stiga forystu og um sex mínútur eftir. Njarðvíkingar léku eins og sá sem valdið hefur eftir það og Friðrik átti tvær góðar troðslur eftir frábært spil við þá Ivey og Guðmund. Fimmtándi deildarsigurinn í röð var staðreynd og Njarðvíkingar urðu þar með annað liðið í sögunni, síðan deildin fór í 22 leiki, til að vinna 20 leiki og jafnframt fyrsta liðið til að sigra fimmtán leiki í röð. 

Njarðvíkingar léku án Ragnars og Igors að þessu sinni en óhætt er að segja að Friðrik hafi stigið hressilega upp í fjarveru Igors. Friðrik var með 25 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar auk þess sem hann var mjög öflugur varnarlega, sérstaklega í síðari hálfleik. Ivey stjórnaði leik liðsins vel og gerði að auki 24 stig, var að hitta vel.

Þórsarar urðu því fórnarlamb spádómanna þetta árið en fyrir leiktíðina var þeim og Tindastól spáð falli. Stólarnir blésu á spárnar en Þórsarar féllu um deild með Haukum og leika þessi lið því í 1. deild á næstu leiktíð.

 

Frétt unnin af vef www.umfn.is

Mynd af www.vf.is