22:42 

{mosimage}

 

Njarðvíkingar eru komnir í undanúrslit í úrslitakeppni Iceland Express deildarinnar eftir frækinn 60-86 sigur á Hamri/Selfoss í Hveragerði í kvöld. Heimamenn gerðu aðeins 5 stig í þriðja leikhluta og aðeins 2 stig fyrstu níu mínúturnar í leikhlutanum þar sem Njarðvíkingar gerðu endanlega út um leikinn með því að skora 24 stig gegn 5 frá Hamri/Selfoss. Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, var að vonum ánægður með leik sinna manna í kvöld og sagði að það hefði verið allt annað að sjá til Njarðvíkurliðsins frá því í fyrsta leik liðanna sem fór fram í Ljónagryfjunni.

 

„Menn voru með mikla löngun til þess að sýna miklu betri frammistöðu í kvöld en þeir sýndu af sér í fyrsta leiknum. Við ætluðum okkur að spila góða vörn og það sést best á því að Hamar/Selfoss gerði aðeins 5 stig gegn okkur í þriðja leikhluta,“ sagði Einar og hrósaði sínum mönnum fyrir frábæra liðsvinnu.

 

Fimm leikmenn gerðu 10 stig eða meira hjá Njarðvíkingum í kvöld en þeirra atkvæðamestur var Jóhann Árni Ólafsson með 19 stig. Hjá Hamri/Selfoss var Bojon Bojovic atkvæðamestur með 11 stig.

 

„Nú eru þrír möguleikar í stöðunni, við fáum ÍR, Grindavík eða Skallagrím í undanúrslitum og það er ljóst að ef ÍR eða Grindavík vinna oddaleiki sína að þá fáum við andstæðinga sem unnu tvo útileiki til að komast í undanúrslitin og verða því á góðu róli,“ sagði Einar en það skýrist á þriðjudagskvöld hvaða lið leika í undanúrslitum.

 

Njarðvík og Snæfell hafa þegar tryggt sig inn í undanúrslitin en odda leikir KR og ÍR og svo Skallagríms og Grindavíkur fara fram á þriðjudagskvöld.

 

Tölræði úr leik Hamars/Selfoss og Njarðvíkur

 

www.vf.is