Reglubreyting um erlenda leikmenn:

Leikmenn á þriðja tug landa löglegir á næsta tímabili

08.mar.2018  14:55 davideldur@karfan.is

Hannes: Leyfa þingi KKÍ á næsta ári að ræða málefnið frekar

 

Ákvörðun hefur verið tekin með það hvernig reglur varðandi erlenda leikmenn verða á næsta tímabili. Eins og áður hafði komið fram var 4+1 reglan sem er í dag og hefur verið síðustu ár talin hefta frjálsa flutninga vinnuafls innan Evrópska efnahagssvæðisins að mati ESA, eftirlitsstofnunar EFTA.

 

Karfan heyrði í formanni körfuknattleikssambandsins, Hannesi Sigurbirni Jónssyni, eftir að spurst hafði út um málið.

 

"Jú það er rétt við vorum bara að senda út tölvupóst um málið fyrir nokkrum mínútum. Við gáfum það út síðastliðið haust að við myndum breyta regluverkinu í samræmi við ábendingar ESA en þar sem sem það tekur auðvitað eingöngu til ríkja innan ESS þá höfum við sem stjórn verið að ræða málið hversu langt við eigum að ganga í þessum breytingum. 

 

Einnig höfum við rætt þetta okkar á milli í hreyfingunni síðustu vikur og meðal annars tókum við góðan hitting með forráðamönnum félaganna nýlega til að ræða þetta mál og fara yfir frá öllum hliðum. Málefni erlendra leikmann hefur verið eitt mesta hitamál hreyfingarinnar undanfarin ár og það má segja að það sé eitt af þeim fáu málum sem ekki hefur verið vísað til stjórnar KKÍ til úrlausnar að loknum síðustu þingum. 

 

Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um þetta mál innan stjórnar alveg eins og í hreyfingunni almennt en á endanum þá mátum við það þannig að gera sem minnstar breytingar og leyfa þingi KKÍ á næsta ári að ræða málefnið frekar því það er sá vettvangur sem félögin hafa viljað ræða þessi mál. Regluverkið mun því breytast á þann hátt að hlutgengi rikisborgara innan EES séu þau sömu og fyrir íslenska leikmenn og þannig fylgjum við eftir kvörtunum/ábendingu ESA "

 

 

Hefur stjórn körfuknattleikssambandsins því ákveðið að á næsta tímabili verði það þannig að svokallaðir Bosman A leikmenn teljist ekki til erlendra leikmanna lengur, en það eru allir þeir er hafa ríkisfang innan evrópska efnahagssvæðisins. Þá munu þeir erlendu leikmenn sem hafa spilað sem "íslendingar" m.t.t. þriggja ára reglunnar einnig halda áfram að spila sem slíkir.

 

Samkvæmt heimildum mun stjórnin hafa tekið ákvörðun, eftir að hafa ráðfært sig við félögin, um að reglan muni standa sem slík fram að næsta þingi, sem fara mun fram á næsta ári. Með því sé breytingin sem sú minnsta sem hægt er að gera fram að þinginu. Þar geti hreyfingin svo komist að varanlegri niðurstöðu í málinu.

 

Mynd / Giordan Watson lék með Njarðvík og Grindavík frá 2011-12 fékk rúmenskt ríkisfang á dögunum og væri því samkvæmt nýju reglunum ekki talinn til erlendra leikmanna á næsta tímabili.

 

 

Leikmenn frá eftirtöldum löndum munu ekki telja sem erlendir á næsta tímabili:

Austurríki
Belgía
Bretland (hið sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands) 
Búlgaría
Danmörk
Eistland
Finnland
Frakkland
Grikkland
Holland
Írland
Ítalía
Króatía
Kýpur (gríski hlutinn)
Lettland
Liechtenstein
Litháen
Lúxemborg
Malta
Noregur
Portúgal
Pólland
Rúmenía
Spánn
Slóvakía
Slóvenía
Svíþjóð
Tékkland
Ungverjaland
Þýskaland