Skiptar skoðanir um keppnisfyrirkomulag í gluggum

Forkeppni HM handan við hornið

12.sep.2017  16:53 nonni@karfan.is

Rykið er vart sest hjá íslenskum körfuknattleiksunnendum eftir að riðlakeppni EuroBasket lauk í Helsinki. Ekki hafðist það markmið að vinna leik í riðlinum að þessu sinni og víða sést t.d. á samfélagsmiðlum að stærsti sigurinn hafi í raun verið að ná inn á lokamótið annað árið í röð. Gott og vel.


En nú er að opnast nýr „gluggi“ í landslagi landsliðanna þar sem forkeppni Heimsmeistaramótsins 2019 er handan við hornið, bókstaflega. Sjálf riðlakeppnin hefst núna í nóvembermánuði þegar Ísland mætir Tékklandi ytra þann 24. nóvember og fær svo Búlgaríu í heimsókn til landsins þann 27. nóvember.


Það verður gríðarlega spennandi að fylgjast með hvernig þetta nýja keppnisfyrirkomulag (EM og HM með fjögurra ára millibili, annað hvert ár) mun þróast. Eins og staðan er í dag finnst manni t.d. ekki líklegt að Chicago Bulls muni gefa Lauri Markkanen frí frá NBA deildinni til að koma í Laugardalshöllina þann 22. febrúar næstkomandi. Bulls á t.d. leik í NBA deildinni gegn Philadelphia þann 22. október og svo gegn Minnesota þann 24. febrúar, leikmaður á borð við Markkanen sem er vafalítið einn af spútnikleikmönnum EM í ár er tæplega að fá frí frá NBA deildinni til að taka þátt í forkeppni EM.


Því miður hefur NBA deildin verið ein helsta ástæðan fyrir því að þessi þróun hafi getað átt sér stað og nú síðast í sumar vændu forsvarsmenn gríska körfuknattleikssambandsins lið Milwaukee Bucks um að halda Giannis „The Greak Freak“ Antetokounmpo frá EM með einhverju pappírssulli og bulli í kringum meiðsli leikmannsins. Það væri þó óskandi að ofurdeild á borð við NBA gæti séð í gegnum fingur sér með svona forkeppnir en í dag verður það að teljast fremur fjarlægur draumur.


En við þurfum í öllu falli ekki að bíða mikið lengur eftir að landsliðið okkar fari aftur af stað, liðlega tveir mánuðir í fjörið á nýjan leik og þegar að því kemur verður vísast búið að draga til einhverra tíðinda. Verða „stuðlabergin“ okkar Hlynur, Logi, Jón Arnór og Pavel áfram í eldlínunni? Ekkert fékkst upp úr þeim með landsliðslífið sitt að loknu EM en eins og staðan er í dag þarf liðið bráðnauðsynlega á þeirra framlagi að halda.


Ekki eru allir á eitt sáttir um aðgerðir FIBA að setja HM og EM í gluggakeppnir og hefur fyrrum NBA leikmaðurinn og formaður körfuknattleikssambands Litháen, Arvydas Sabonis, m.a. látið hafa eftir sér að fólk sem skilji körfuknattleik ætti að vera vonsvikið með þessa keppni í gluggum því stuðningsmenn komi í keppnishallirnar til að sjá þá bestu spila. Vísar hann þar í þá staðreynd að ekki sé líklegt að NBA gefi tommu eftir þó álfurnar færi sínar forkeppnir og lokakeppnir á landsliðsstigi yfir í gluggakeppnir á miðjum tímabilum. Því er viðbúið að togstreitan í einkaframtaki Euroleague og NBA í samlífi með sérsamböndunum FIBA og FIBA Europe haldi áfram um nokkurt skeið.


Hitt er svo annað og það er hvernig áhorfendur/stuðningsmenn muni taka þessu nýja fyrirkomulagi sem hafa síðustu áratugi rétt aðeins geta notið landsleikja að sumri til.

Hér að neðan má sjá leikjadagskrá íslenska liðsins í forkeppni HM 2019

F-riðill

Ísland
Tékkland
Búlgaría
Finnland

24. nóvember 2017
Tékkland - Ísland


27. nóvember 2017
Ísland - Búlgaría


22. febrúar 2018
Ísland - Finnland


25. febrúar 2018
Ísland - Tékkland


29. júní 2018
Búlgaría - Ísland


2. júlí 2018
Finnland - Ísland