Antonio Hester æfir með bestu leikmönnum í heimi:

"Lærði margt um sjálfan mig og hvar minn leikur stendur"

08.ágú.2017  12:18 davideldur@karfan.is

Telur Tindastól geta unnið titilinn

 

Körfuknttleiksmenn, líkt og aðrir íþróttamenn, nýta frí sín misvel. Margir æfa með liðum sínum og/eða landsliðum yfir sumartímann til þess að gera sig tilbúna fyrir komandi leiktíð. Erlendir leikmenn fara þá oftar en ekki til síns heima, þar sem þeir þurfa að finna sér einhverjar leiðir til þess að æfa og bæta leik sinn fyrir tímabilið.

 

Við heyrðum í erlendum leikmanni Tindastóls, Antonio Hester, og spurðum hann aðeins út í hvað hann hefði verið að gera í sumar, þar sem að spurst hafði út að hann hefði verið að spila á móti góðum leikmönnum í Miami Pro deildinni í Bandaríkjunum.

 

 

Að sögn Hester voru þar mættir margir af bestu leikmönnum í heimi. Stjörnuleikmenn NBA deildarinnar á borð við James Harden og John Wall, ásamt fleirum góðum leikmönnum líkt og Victor Oladipo, Tyreke Evans, Jeremy Pargo og fleiri. Aðspurður hvernig það hafi verið að spila gegn leikmönnum á þessu kalíberi sagði Hester “Þetta var frábær upplifun og ég lærði margt um sjálfan mig og hvar minn leikur stendur”

 

 

Varðandi sínar æfingar yfir sumarið sagðist hann æfa með þjálfaranum Tony Falce hjá Elite Skills Training og Nathan Conley hjá Court XIV. Þannig næði hann sem best bæði að halda sér í æfingu, sem og bæta sig yfir sumartímann.

 

 

Hester skilaði flottu tölum á sínu fyrsta tímabili í Dominos deildinni í annars stormsömu gengi Tindastóls á “síðasta ári”. Í 20 leikjum skoraði hann 23 stig, tók 11 fráköst og gaf 2 stoðsendingar að meðaltali í leik. Tindastóll endaði í þriðja sæti deildarkeppninnar, en fór út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar á móti Keflavík. 

 

Tindastóls liðið að sjálfsögðu bætt annars góðan hóp sinn fyrir komandi átök, með ráðningu aðstoðarþjálfara, sem og bættu þeir landsliðsmanninum Arnari Björnssyni í sínar raðir. Hester segist mjög spenntur fyrir því að koma aftur í Skagafjörðinn og að Tindastóll eigi góða möguleika á að vinna titilinn á komandi tímabili. Til þess þurfi þeir þó að standa saman sem lið og halda einbeitingu í gegnum tímabilið. Enn frekar að þeir verði að standa saman og trúa á hvorn annan.