Besti ungi leikmaður efstu deildar á leið til USA

Þórir semur við Nebraska Huskers

07.ágú.2017  15:22 Oli@karfan.is

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson leikmaður KR í Dominos deildinni skoðar nú aðstæður hjá sterkum skólum í Bandaríska háskólaboltanum. Þessa dagana er hann staddur í Nebraska þar sem hann skoðar aðstæður hjá háskólanum þar. Hann mun hafa rætt við aðalþjálfara liðsins Tim Miles og snætt með honum kvöldmat.

 

Að því loknu mun Þórir hafa samið við skólann og mun leika þar að ári. Frá þessu segir á heimasíðu Big Red Today sem fylgir íþróttaliðum skólans eftir.  Jonathan Givony blaðamaður ESPN sagði fyrstur frá fregnunum á Twitter síðu sinni. 

 

Nebraska leikur í Big Ten deildinni í Bandaríska háskólaboltanum og þykir nokkuð sterkt lið. Liðið hefur oft verið nálægt því að komast í March Madness en síðast komst liðið þangað árið 2014 en þá féll liðið úr í annari umferð gegn Baylor. Þekktasti leikmaðurinn sem spilað hefur með liðinu er Tyronne Lue fyrrum NBA meistari með LA Lakers auk þess sem hann er núverandi þjálfari Cleveland Cavaliers. 

 

Þórir hefur sagt frá því að hann ætli að leika erlendis á næsta tímabili en hann hefur verið í samningaviðræðum við nokkra skóla. Hann hefur skoðað aðstæður og verið í viðræðum við gamla skólann hans Julius Erving UMASS í sumar auk Utah. Samkvæmt heimasíðu Nebraska munu tvo sæti í liðinu vera opin fyrir komandi tímabil og hlaut Þórir annað sætið.

 

Þórir var á síðasta tímabili valinn besti ungi leikmaður Dominos deildar karla og vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína með U18 landsliði Íslands á EM fyrir ári síðan. Í sumar lék hann svo stórt hlutverk í U20 landsliði Íslands sem lék í A-deild Evrópumótsins, þar sem hann var með 7,1 stig og 4,7 fráköst að meðaltali í leik.